KAPP Skaginn ehf kaupir eignir þrotabús Skagans 3X á Akranesi
Hópur fjárfesta hefur náð samkomulagi um kaup á öllum búnaði og lausafé þrotabús Skagans 3X á Akranesi. Auk þess munu þeir taka á leigu mikið af þeim húsakosti sem fyrirtækið bjó yfir í því skyni að hefja þar aftur rekstur.
Það er nýstofnað félag, KAPP Skaginn ehf., sem kaupir eignirnar en félagið er að meirihluta í eigu KAPP ehf., rótgróins tæknifyrirtækis sem sérhæfir sig í tækjabúnaði fyrir sjávarútveg, fiskeldi og annan iðnað. Aðrir hluthafar KAPP Skagans ehf eru m.a. Eignarhaldsfélagið VGJ og TECTRU S/A auk lykilstarfsmanna hins nýja félags og ýmsir fjárfestar. Af hálfu þrotabúsins komu Helgi Jóhannesson skiptastjóri og Íslandsbanki að gerð samkomulagsins.
Freyr Friðriksson stjórnarformaður KAPP Skagans ehf, er forstjóri og stærsti hluthafi KAPP ehf, er bjartsýnn á framtíð félagsins. „Ekki aðeins er verið að tryggja störf á Akranesi heldur eru væntingar okkar að þarna verði rekin ábatasöm starfsemi sem til lengri tíma geti orðið miðstöð þekkingar og þróunar félagsins fyrir m.a. sjávarútveg hér á landi.“ Að sögn Freys hefði þessum áfanga ekki verið náð nema af því að margar hendur lögðust á eitt, ekki bara forsvarsmenn þrotabúsins og Íslandsbanka, heldur einnig Akraneskaupstaður, auk fjölda annarra aðila.
Viðskiptin eru gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins en vonir standa til þess að unnt verði að hefja starfsemi að nýju á Akranesi þann 1. nóvember næstkomandi.
Ráðgjafar kaupanda við viðskiptin voru LEX lögmannstofa og OPUS lögmenn auk þess sem að Sævar Freyr Þráinsson veitti aðilum ráðgjöf í sjálfboðavinnu.