KAPP gerir samning við Loðnuvinnsluna Fáskrúðsfirði
Nýlega skrifaði KAPP ehf undir samning við Loðnuvinnsluna hf. Fáskrúðsfirði um hönnun og uppsetningu á frystikerfi í nýtt uppsjávarvinnsluhús fyrir LVF sem sérhæfir sig í vinnslu á uppsjávarfiski, loðnu, síld og makríl.
Samningurinn er viðamikill og nær m.a. til sölu á tveimur frystivélum, dælukút, millikæli, eimsvala og búnaði til tengingar á nýjum Big Mama frystum ásamt uppsetningu.
Frystikerfið notar ammóníak sem er mjög öflugur og einstaklega umhverfisvænn kælimiðill. Hann er aðallega notaður í frystihúsum, uppsjávarskipum, frystiskipum og stærri landvinnslum.
Nýja vinnslukerfið, sem er hannað og smíðað hjá Skaganum 3x, mun auka afköstin um allt að 70% miðað við núverandi afköst eða 400 tonn á sólarhring.
Uppsetning byrjar í október og lýkur í desember.
KAPP ehf er með öflugt kæli- og frystiverkstæði með sérhæfingu fyrir sjávarútveg og matvælaiðnað. Starfsemin nær til allra þátta kælingar og frystingar; þarfagreining, ráðgjöf, hönnun, smíði, uppsetning, þjónusta og viðgerðir fyrir alla kælimiðla hvort sem er á verkstæði KAPP eða hjá viðskiptavini.
KAPP ehf framleiðir einnig OptimICE krapavélarnar sem hafa valdið byltingu í kælingu við fiskveiðar og vinnslu.
Á meðfylgjandi mynd sem tekin var við undirskrift samningsins í nýjum höfuðstöðvum KAPP að Turnahvarfi 8 í Kópavogi eru frá vinstri: Þorrri Magnússon, framleiðslustjóri Loðnuvinnslunnar, Heimir Halldórsson, þjónustustjóri KAPP, Freyr Friðriksson, eigandi KAPP, Friðrik Már Guðundsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar og Óskar Sveinn Friðriksson, framkvæmdastjóri KAPP.