Eigendur KAPP kaupa rekstur Stáltech
Hjónin Freyr Friðriksson og Elfa Hrönn Valdimarsdóttir, eigendur KAPP ehf., hafa keypt rekstur Stáltech ehf, sem hefur þjónustað fiskvinnslur, kjötvinnslur og aðrar greinar matvælaiðnaðarins frá stofnun árið 2003. Stáltech hefur jafnframt framleitt færibönd, kæli & uppþýðingarkör fyrir sjávarútveginn ásamt því að sinna sölu og þjónustu á fiskvinnsluvélum frá Pisces. þetta kemur fram í tilkynningu.
„Með þessum kaupum erum við að styrkja KAPP ehf sem enn öflugra þjónustu og framleiðslufyrirtæki á sviði véla-, kæli- og renniverkstæðis. Við sjáum mikil tækifæri í að auka enn frekar framleiðslu og þjónustu við sjávarútveginn og matvælaiðnaðinn í heild sinni. Við getum nú boðið upp á fleiri lausnir fyrir okkar viðskiptavini,” segir Freyr Friðriksson, framkvæmdastjóri KAPP.
Fyrirtækið framleiðir hinar heimsþekktu OPTIM-ICE ísþykknivélar sem eru mjög vinsælar á alþjóðamarkaði. OPTIM-ICE er með bestu kæliaðferðum sem fyrirfinnast í dag en ísþykknivélarnar hafa einstaklega hraða kælingu og eiginleika sem fara mjög vel með hráefnið.
Allir starfsmenn Stáltech og fyrrum eigendur fyrirtækisins, þeir Eiður Sveinsson og Páll Ingi Kristjónsson, halda áfram að starfa hjá KAPP í höfuðstöðvum fyrirtækisins að Miðhrauni 2 í Garðabæ. KAPP hefur nýverið stækkað framleiðslusal fyrirtækisins um 300 fermetra og segir Freyr að sú stækkun komi sér vel undir starfsemi Stáltech.
Myndatexti: Eiður Sveinsson, Elfa Hrönn Valdimarsdóttir, Freyr Friðriksson og Páll Ingi Kristjónsson við OPTIM-ICE ísþykknivél í höfuðstöðvum KAPP ehf að Miðhrauni 2 í Garðabæ.