CO2 kælimiðill í allar krapavélar
KAPP kynnti nýjung á Seafood Expo sjávarútvegssýningunni í Barcelona í dag.
Um er að ræða CO2 kælimiðil sem verður nú boðið upp á í fyrsta sinn í allar krapavélar í stað freons.
KAPP er fyrsta fyrirtækið í heiminum til að þróa og framleiða krapavélar sem eru umhverfisvænar og standast krefjandi kröfur og álag sem er á vélbúnaði til sjós.
Byltingarkenndur búnaður
,,Nýi CO2 kælimiðill er byltingarkenndur búnaður. Sjávarútvegsfyrirtæki geta minnkað kolefnisspor með því að skipta yfir í CO2 umhverfisvæna kælimiðilinn og minnka þannig GWP (Global Warming Potential) eða hlýnunarmáttsstuðul gríðarlega.
Nýi CO2 umhverfisvæni kælimiðilinn minnkar GWP úr 1397 niður í 1 GWP. Hlýnunarstuðull er geta gróðurhúsalofttegundar til að valda loftslagshlýnun samanborið við mátt CO2. Freon R-449A er 3.255 ár að dreifa í náttúrunni en CO2 er 1 ár að losna," segir Heimir Halldórsson, viðskiptastjóri KAPP.
CO2 í boði fyrir alla OptimICE krapavélar
Eftir langt þróunarstarf hjá KAPP, þar sem öll þróun og framleiðsla fer fram, verður boðið upp CO2 í allar krapavélar á þessu ári.
,,Til að ná að framleiða vélar með CO2 fyrir sjávarútveginn þá þarf mikla þekkingu á honum ásamt vel menntuðum tæknimönnum. Þetta og meira til er allt til staðar hjá KAPP og afraksturinn af því er að fyrsta vél sinnar tegundar í heiminum verður afhent seinna á þessu ári," segir Heimir.
Sjálfbær ábyrgð
Hann segir mikilvægt að allir leggi sitt af mörkum í umhverfismálum. ,,KAPP er leiðandi iðnaðarfyrirtæki í sjálfbærnimálum, með sinn eigin kolefnisskóg, sérhæfingu í að aðstoða fyrirtæki við að minnka kolefnisspor sitt með því að útrýma F-gösum (feron) og setja inn umhverfisvæna kælimiðla í staðin. Nú bætist við enn ein stoðin í sjálfbærnimálum hjá KAPP með því að bjóða CO2 lausnina fyrir sjávarútveg."